Síður

20.2.11

Virkt jafnrétti

Í tilefni konudagsins langar mig að vekja ykkur til umhugsunar um jafnrétti.

Ég las þessa grein eftir Andra Snæ Magnason og því miður held ég að hann hafi að mörgu leyti rétt fyrir sér. Ég tel að viðhorf til þjóðfélagshópa séu oft ómeðvituð en móti samt gjörðir okkar. Það sem við vitum ekki af er erfitt að breyta. Fólk getur sagt: "Ég vil jafnrétti" en hlustar svo ekki jafn mikið á konuna í sjónvarpinu eins og karlinn, eða gefur stráknum sínum aldrei tækifæri á að leika með dúkku. Viljum við ekki uppeldi sem ýtir undir þá hugmynd að karlmenn séu fullfærir um að annast börn?Ég held að flestallir vilji vera fordómalausir. Ég held að flestallir vilji jafnrétti kynjanna. Ég er bara á því að þessi viðhorf mótist minna af því sem okkur langar, og mun meira af því sem við pikkum upp á lífsleiðinni án þess að pæla í því, ásamt e.t.v. einhvers konar fyrirframgefinni tilhneigingu til að eigna konum og körlum ólíka eiginleika. 

Ég held raunar að kynin SÉU ólík, ýmsar rannsóknir á öðrum spendýrum styðja það, t.d. hafa karlkyns apaungar meiri grófhreyfiþörf og atast meira hvor í öðrum. En þetta eru meðaltöl, að meðaltali eru strákar svona og stelpur hinsegin, en það þýðir ekki að hver og einn einstaklingur innan hópsins sé svona. Það þýðir heldur ekki að annað kynið sé betra en hitt. Það á að bera virðingu fyrir kvenlægum sem karllægum gildum og ýta undir að hver einstaklingur hafi val um að beina athygli sinni að hverju sem honum dettur í hug.En aftur að grunnpælingunni: Það er ekki nóg að gefa konum og körlum jöfn tækifæri. Það er ekki einu sinni nóg að segjast vilja jafnrétti. Við þurfum að sýna það í verki. Við þurfum að leika með stelpunum okkar í tæknilegó. Við þurfum að fara með strákunum okkar í pabbó. Við þurfum að smíða kassabíl með stelpunum okkar. Við þurfum að föndra með strákunum okkar. Við þurfum að láta stelpurnar okkar skipta um ljósaperu. Við þurfum að láta stákana okkar vaska upp eftir matinn. Við þurfum að láta stelpurnar okkar slá garðinn. Við þurfum að biðja stákana okkar um að passa yngri systkini. 

Við þurfum sjálf að hafa trú á okkur og vera góðar fyrirmyndir. Ég legg til að við heitum því að að stuðla að jafnrétti í orði sem og verki og búa til nýja og jafnari framtíð fyrir börnin okkar.

19.2.11

Glýja í augun

Ég á í ástar-haturssambandi við Glee... OK, OK, það er mun meira af ást en hatri. Mér finnst bara einhvern veginn að ég ætti ekki að þola þennan þátt. Hann er klisjukenndur, yfirdrifinn, óþolandi politically correct og oft er góðum lögum gjörsamlega slátrað af vælandi unglingum. 

En það er bara svolítið gaman að ímynda sér að flottasti gaurinn í skólanum sé á eftir feitu röff-töff stelpunni með gleraugun, að besti leiksmaðurinn í fótbolta vilji vera í nördalegum söngklúbb, að þú getir sigrað heiminn með söng og dansi, að öll dýrin í skóginum geti verið vinir, jazz hands...
Svo er ég skotin í Puckerman.
Það verður náttúrulega eitt svakalega glýjulegt myndband að fylgja með í endann :-)

16.2.11

Á vegi mínum varð (nr. 3)

Red Envelope: Fallegar umbúðir gera innihaldið enn betra.
Red Envelope: Skartgripirnir mínir eru allir í rugli ofan í skúffu. Þá er þetta nú aðeins sniðugra.
Design+Home: Sneddí og ódýrt líka!
DesignSwan: Mynstrið á þessum tekötlum kemur aðeins í ljós þegar teið er tilbúið. Takið eftir Space Invaders.
Olde Thompson: Ég er ansi montin með að geta loksins sullað saman alls konar kryddum án uppskriftar. 


15.2.11

Á vegi mínum varð (nr. 2)

She Wears Flowers: Þetta er aðeins of sykursætt fyrir minn smekk (fíla Bítlatilvísunina samt). Ég rannsaka aftur á móti sjónskynjun svo hver veit nema ég geri eitthvað svipað með örlítið öðrum skilaboðum? 
Made It on Monday: The Hungry Caterpillar (eða kálormurinn sísvangi, eins og mér finnst að ætti að kalla hann) er klassísk barnabók sem ég held nokkuð upp á eftir að ég keypti hana á 50 sent á bókasafninu. Hérna er kálormsafmæli þar sem boðið var upp á allt sem kálormurinn át -- nema ef til vill laufblaðið.
Ruffles 'n' Such: Nokkuð töff sjal. Þetta virkar einfalt, en það gerði líka sjalið sem tók mig ár að prjóna...
Scissors and Spatulas: Gamalt þvottabretti var spreyjað svart og gert að hengi fyrir staka sokka. Þar mega þeir dúsa þar til sokkaskrýmslið skilar hinum sem passa við.
Jewelera: Fallegt (og dýrt).
Woodland Belle: Örgarður í hálsmeni.
Just Another Hang-Up: Ótrúlega auðveld uppskrift að brauði sem ég hygg prófa bráðlega.

14.2.11

Kökusleikjóar!

Ég hef einu sinni smakkað kökusleikjóa og þeir voru einkar ljúffengir. Hér eru leiðbeiningar. Ég reyndi að gera svona með skelfilegum afleiðingum. Ég gerði nokkur reginmistök, þau stærstu voru að halda að það væri allt í þessu fína að nota tannstöngla í stað pinna. Svo reyndist ekki vera. Annað var að nota óvart súkkulíki í stað súkkulaðis. Bjakk :-Þ Njótið frekar þessara fallegu mynda.
12.2.11

Á vegi mínum varð (nr. 1)

KojoDesigns: Hand- og vélsaumuð rúmföt undir áhrifum frá búðinni Anthropologie. Ef maður hefði þolinmæði og tíma...
Away We Go: Gömul kryddhilla spreyjuð og notuð undir hnappa og tölur. Mig vantar reyndar kryddhillu líka.
Vintage Revivals: Öll húsgögnin okkar eru brún eða svört, en kannski ætti maður að vera aðeins djarfari í litavali.
Yedi Houseware: Ég held svei mér þá að ég kaupi þessa. Sætir og ódýrir, killer combo.
ModCloth: held að ég gæti púllað þennan. Mig er bara farið að lengja eftir vorinu...
Donald Norman: Meginþema þessarar bókar er að hanna eigi hluti á þann hátt að það segi sig sjálft hvernig skuli nota þá. Margar krókaleiðir í doktorsnámi mínu leiddu mig á endanum aftur að þessari grundvallarhugmynd.

9.2.11

Korktafla klædd í nýjan búning

Ég keypti einhvern tíma korktöflu í IKEA sem aldrei var sett upp á vegg og endaði við hliðina á vaskinum. Þetta var ótrúlega venjuleg og ljót korktafla sem á hrúguðust hinir ýmsu afsláttarmiðar og alls kyns spjöld. Samt tókst okkur einhvern veginn alltaf að gleyma að líta á þessa druslulegu og ófrýnilegu töflu, og að lokum féll hún í gleymsku.

Mamma á gamla saumavél, alls konar efnisbúta, ýmiss konar tölur og djásn, enda hendir hún aldrei neinu. Ég komst að því þegar ég flutti út að ég saknaði þess mikið að hafa ekki aðgang að öllum þessum sniðugu hlutum. Ég eignaðist svo á dögunum saumavél og er ekki lítið glöð með hana. Ég sé það reyndar á þessu myndbandi að ég nota hana eins og gömlu saumavélina hennar mömmu og kann ekkert á alla nútímamöguleika sem vélin býður upp á, enda hef ég lofað sjálfri mér að læra betur á hana.


Ég hef þó allavega eitthvað notað hana og gerði upp blessaða korktöfluna um helgina. Hugmyndina fékk ég af Systraseið en útfærslu mína má sjá í máli og myndum:

Við fjölskyldan gerðum okkur ferð í Lorraine Fabrics í bænum Pawtucket, Rhode Island.
Þar má finna endalaust úrval efna og alls kyns saumadóts.
Ekki spillir að oft má kaupa efnin hræódýr.
Hér má sjá fenginn.
Sturtað út pokunum.
Ég keypti ýmsar pjötlur og borða.
Ég tók til það sem mér fannst líklegt að kæmi að notum í þetta sinn.
Ég klippti blúnduefnið þannig að það passaði á rammann og rúmlega það.
Svo límdi ég það á með taulími.
Alexander fannst tilvalið að stappa duglega á töflunni.
Hér hefur efnið verið strengt á rammann. Raunar finnst mér hún líka mjög falleg svona.

Smá kaffipása tekin með hjálp nýju espressóvélarinnar.
Ef klukkan væri ekki svona margt fengi ég mér bolla því ég fæ vatn í munninn við að sjá þessa mynd.
Ég ákvað þó að láta ekki staðar numið heldur klippti til renning og mátaði á rammann.
Svo saumaði ég á hann blúndu.
Ég prófaði náttúrulega skrautspor í saumavélinni.
Úps! Rauði tvinninn búinn og ég rétt gat klárað öðru megin.
Ég verð þá bara að sauma með hvítu hinu megin. Títta þetta niður.
Festi rauðan borða með títuprjónum.
Lími svo að aftan og voilà!
Eitthvað fannst mér vanta svo ég skellti taulími á nokkrar teiknibólur og vafði utan um þær borða.
Ég strengdi annan borða utan um, hnýtti, og þá var komin þessi fína rós.
Best að gera aðra í stíl við hinn borðann sem ég notaði í renninginn.
Að lokum náði ég í nokkrar brúðkaupsmyndir.