Síður

20.2.11

Virkt jafnrétti

Í tilefni konudagsins langar mig að vekja ykkur til umhugsunar um jafnrétti.

Ég las þessa grein eftir Andra Snæ Magnason og því miður held ég að hann hafi að mörgu leyti rétt fyrir sér. Ég tel að viðhorf til þjóðfélagshópa séu oft ómeðvituð en móti samt gjörðir okkar. Það sem við vitum ekki af er erfitt að breyta. Fólk getur sagt: "Ég vil jafnrétti" en hlustar svo ekki jafn mikið á konuna í sjónvarpinu eins og karlinn, eða gefur stráknum sínum aldrei tækifæri á að leika með dúkku. Viljum við ekki uppeldi sem ýtir undir þá hugmynd að karlmenn séu fullfærir um að annast börn?



Ég held að flestallir vilji vera fordómalausir. Ég held að flestallir vilji jafnrétti kynjanna. Ég er bara á því að þessi viðhorf mótist minna af því sem okkur langar, og mun meira af því sem við pikkum upp á lífsleiðinni án þess að pæla í því, ásamt e.t.v. einhvers konar fyrirframgefinni tilhneigingu til að eigna konum og körlum ólíka eiginleika. 

Ég held raunar að kynin SÉU ólík, ýmsar rannsóknir á öðrum spendýrum styðja það, t.d. hafa karlkyns apaungar meiri grófhreyfiþörf og atast meira hvor í öðrum. En þetta eru meðaltöl, að meðaltali eru strákar svona og stelpur hinsegin, en það þýðir ekki að hver og einn einstaklingur innan hópsins sé svona. Það þýðir heldur ekki að annað kynið sé betra en hitt. Það á að bera virðingu fyrir kvenlægum sem karllægum gildum og ýta undir að hver einstaklingur hafi val um að beina athygli sinni að hverju sem honum dettur í hug.



En aftur að grunnpælingunni: Það er ekki nóg að gefa konum og körlum jöfn tækifæri. Það er ekki einu sinni nóg að segjast vilja jafnrétti. Við þurfum að sýna það í verki. Við þurfum að leika með stelpunum okkar í tæknilegó. Við þurfum að fara með strákunum okkar í pabbó. Við þurfum að smíða kassabíl með stelpunum okkar. Við þurfum að föndra með strákunum okkar. Við þurfum að láta stelpurnar okkar skipta um ljósaperu. Við þurfum að láta stákana okkar vaska upp eftir matinn. Við þurfum að láta stelpurnar okkar slá garðinn. Við þurfum að biðja stákana okkar um að passa yngri systkini. 

Við þurfum sjálf að hafa trú á okkur og vera góðar fyrirmyndir. Ég legg til að við heitum því að að stuðla að jafnrétti í orði sem og verki og búa til nýja og jafnari framtíð fyrir börnin okkar.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli